Alvotech hefur klíníska rannsókn á AVT05, fyrirhugaðri líftæknilyfjahliðstæðu við Simponi® og Simponi Aria®
- Rannsóknin mun bera saman AVT05 og Simponi® í sjúklingum með meðallagi alvarlega og alvarlega liðagigt
Alvotech (NASDAQ: ALVO) hefur hafið klíníska rannsókn á AVT05, fyrirhugaðri líftæknilyfjahliðstæðu við Simponi® og Simponi Aria® (golimumab). Rannsóknin mun bera saman klíníska virkni, öryggi og þolanleika AVT05 og Simponi® í fullorðnum sjúklingum með meðallagi alvarlega eða alvarlega liðagigt.
„Ég fagna þessum nýja áfanga í klínískri þróun á líftæknilyfjahliðstæðum Alvotech,“ sagði Joseph McClellan, framkvæmdastjóri rannsókna og þróunar. „Markmið okkar er að bæta lífsgæði sjúklinga með auknu framboði af hagkvæmari líftæknilyfjum. Til þess hefur Alvotech byggt upp fullkomna aðstöðu sem gerir okkur kleift að vinna að þróun og framleiðslu margra lyfja samhliða.“
Rannsóknin felst í slembiraðaðri, tvíblindri, fjölsetra meðferðarprófun til að bera saman klíníska virkni, öryggi og þolanleika AVT05 og Simponi í sjúklingum með meðallagi alvarlega eða alvarlega liðagigt. Meginendapunktur verður samanburður á virkni AVT05 og Simponi á 16. viku, út frá breytingu frá grunnmælingu samkvæmt stöðluðu prófi sem metur alvarleika liðagigtar með klínískum athugunum og mælingum. Í janúar kynnti Alvotech að hafin væri rannsókn á lyfjahvörfum AVT05.
Heildartekjur af sölu Simponi og Simponi Aria nema um 2,1 milljarði Bandaríkjadala á ári, samkvæmt nýjustu ársfjórðungsuppgjörum Johnson & Johnson, framleiðanda lyfjanna.
Um AVT05
AVT05 er líftæknilyfjahliðstæða við Simponi og Simponi Aria (golimumab). Golimumab er einstofna mótefni sem hamlar frumuboðefninu tumor necrosis factor alpha (TNF alpha). Aukið magn TNF alpha er talið geta verið orsakaþáttur í þrálátum bólgusjúkdómum, s.s. liðagigt, sóraliðagigt og hrygggigt. AVT05 er lyf í þróun hefur ekki verið samþykkt til notkunar á neinu markaðssvæði. Þá liggur niðurstaða eftirlitsaðila ekki fyrir um notkun lyfsins sem líftæknilyfjahliðstæðu.
Um Alvotech
Alvotech, stofnað af Róberti Wessman, er líftæknifyrirtæki sem einbeitir sér að þróun og framleiðslu líftæknihliðstæðulyfja fyrir sjúklinga um allan heim. Alvotech stefnir að því að verða leiðandi fyrirtæki á sviði líftæknihliðstæðulyfja. Til að tryggja hámarksgæði eru allir þættir í þróun og framleiðslu í höndum fyrirtækisins. Alvotech vinnur að þróun átta líftæknilyfjahliðstæða sem nýst geta sjúklingum með sjálfsofnæmis-, augn- og öndunarfærasjúkdóma, beinþynningu eða krabbamein. Alvotech hefur gert samninga um sölu, markaðssetningu og dreifingu við samstarfsaðila á öllum helstu mörkuðum, í Bandaríkjunum, Evrópu, Japan, Kína, öðrum hlutum Asíu, Rómönsku-Ameríku, Afríku og Mið-Austurlöndum. Meðal samstarfsaðila Alvotech eru Teva Pharmaceuticals, dótturfélag Teva Pharmaceutical Industries Ltd. (markaðsaðili í Bandaríkjunum), STADA Arzneimittel AG (Evrópa), Fuji Pharma Co., Ltd (Japan), Advanz Pharma (EES, Bretland, Sviss, Kanada, Ástralía og Nýja Sjáland) Cipla/Cipla Gulf/Cipla Med Pro (Ástralía, Nýja Sjáland, Afríka), JAMP Pharma Corporation (Kanada), Yangtze River Pharmaceutical (Group) Co., Ltd. (Kína), DKSH (Taívan, Hong Kong, Kambódía, Malasía, Singapore, Indonesía, Indland, Bangladess og Pakistan), YAS Holding LLC (Miðausturlönd og Norður Afríka), Abdi Ibrahim (Tyrkland), Kamada Ltd. (KMDA; Ísrael), Mega Labs, Stein, Libbs, Tuteur and Saval (Rómanska-Ameríka) og Lotus Pharmaceuticals Co., Ltd. (Taíland, Víetnam, Filippseyjar og Suður-Kórea).
Alvotech, fjárfestatengsl og samskiptasvið
Benedikt Stefánsson
alvotech.ir[at]alvotech.com
For all the latest Health News Click Here
For the latest news and updates, follow us on Google News.